Ferill 213. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 213 . mál.


Ed.

268. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 86/1988, um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. lög nr. 76/1989 og lög nr. 70/1990.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Í stað 2. mgr. 94. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Eigi skal greiða stimpilgjald af lánssamningum sem Húsnæðisstofnun ríkisins gerir við framkvæmdaraðila vegna byggingar eða kaupa á félagslegum íbúðum. Skuldabréf, sem framkvæmdaraðili gefur út í verklok til Húsnæðisstofnunar ríkisins, eru einnig stimpilfrjáls.
     Eigi skal greiða stimpilgjald af skuldabréfum sem kaupendur félagslegra íbúða gefa út til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þó skal greiða stimpilgjald við kaup á almennum kaupleiguíbúðum.

2. gr.


    Lögin öðlast þegar gildi. Fjármálaráðherra er heimilt að endurgreiða stimpilgjald af skjölum þeim sem getur í 1. gr. og stimpluð voru eftir 1. júní 1990.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í lögum nr. 70/1990 um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var í rr lið 3. gr. ákvæði þess efnis að undanþegin stimpilgjaldsskyldu væru skuldabréf félagslegra íbúða. Var ætlunin sú að öll skuldaskjöl vegna lánveitinga Húsnæðisstofnunar ríkisins væru stimpilfrjáls vegna bygginga og kaupa á félagslegum íbúðum. Var gert ráð fyrir því að undir þetta ákvæði félli annars vegar skuldaskjöl vegna lánveitinga til bygginga á félagslegu íbúðarhúsnæði og hins vegar skuldaskjöl vegna kaupa einstaklinga á félagslegum íbúðum.
    Félagslegar íbúðir eru skv. 52. gr. laga 86/1988, ásamt síðari breytingum:
    Kaupleiguíbúðir.
    Félagslegar eignaríbúðir.
    Félagslegar leiguíbúðir.
    Félagslegar íbúðir byggðar í tíð eldri laga.
    Kaupleiguíbúðir skv. 1 skiptast í félagslegar kaupleiguíbúðir og almennar kaupleiguíbúðir. Þar er um þrjá kosti að ræða:
    Kaupréttur nýttur strax í upphafi.
    Leiga með kauprétti.
    Leiga með hlutareign.
    Löggjafinn hefur því skýrt nákvæmlega hvað séu félagslegar íbúðir.
    Á þeim tíma sem lög nr. 70/1990 voru sett hafði ekki tíðkast að greitt væri stimpilgjald af framkvæmdalánasamningum. Þegar ákveðið varð að setja sérreglu í 2. málsl. 2. mgr. 94. gr. sem gilti um stimpilskyldu almennra kaupleiguíbúða var sú sérregla einungis hugsuð þegar framkvæmdaláni er breytt í fast lán og gefið út skuldabréf fyrir langtímaláni. Litið var svo á að stimpilskylda vegna kaupa á almennum kaupleiguíbúðum ætti einungis við þegar um væri að ræða skuldabréf fyrir langtímaláni. Litið hefur verið svo á að með lögum 70/1990 hefði verið lögfest sú regla að ekki skyldi greitt stimpilgjald af skuldabréfum félagslegra íbúða og eina undantekningin væri að stimpilgjald skuli greitt við kaup á almennum kaupleiguíbúðum, þ.e. af skuldabréfum. Þegar frumvarp að því sem varð að lögum nr. 70/1990 var í undirbúningi var sú lögskýring óþekkt að framkvæmdalánasamningi skyldi þinglýst, enda hafði svo ekki verið gert. Það kom ekki til álita við samningu laganna að greitt skyldi stimpilgjald af framkvæmdalánasamningi.
    Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 86/1988, ásamt síðari breytingum, standa framkvæmdir sjálfar til tryggingar veittu framkvæmdaláni á hverjum tíma. Húsnæðismálastjórn setur nánari reglur um tryggingar. Með tilkomu annarra framkvæmdaraðila en sveitarfélaga fyrir byggingu félagslegra íbúða hefur húsnæðismálastjórn krafist raunverulegra trygginga fyrir framkvæmdaláni og það er því eftir setningu laga nr. 70/1990 sl. vor sem farið er að þinglýsa framkvæmdalánssamningi og krafa kemur fram um að skuldabréf séu stimpilgjaldsskyld. Til að tryggja það að sú ákvörðun löggjafarvaldsins, sem birtist í 94. gr. laga nr. 86/1988, sbr. lög nr. 70/1990 um að ekki skuli greiða stimpilgjald af afsölum né skuldabréfum vegna félagslegra íbúða, sé í raun framkvæmd þykir nauðsynlegt að flytja þetta frumvarp.
    Alþingi samþykkti sl. vor að eigi skyldi greiða stimpilgjald af afsölum né skuldabréfum félagslegra íbúða. Í samræmi við vilja Alþingis um að undanskilja félagslegar íbúðir stimpilgjaldi er þetta frumvarp flutt til að árétta að lánssamningur við framkvæmdaraðila beri ekki stimpilgjöld og heldur ekki skuldabréf vegna framkvæmdalánssamninga sem gefnir eru út í verklok.
    Með því að undanþiggja umrædd skuldaskjöl stimpilskyldu er verið að lækka annars vegar verð félagslegra íbúða og hins vegar lækka kostnað vegna lántöku kaupenda hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Sjá almennar athugasemdir.

Um 2. gr.


     Í 2. gr. er ákvæði um gildistöku. Þar er einnig kveðið á um heimild til handa fjármálaráðherra til að endurgreiða stimpilgjöld af skuldaskjölum sem stimpluð voru eftir að lög nr. 70/1990, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, tóku gildi. Er þetta í samræmi við vilja löggjafarvaldsins með setningu laga nr. 70/1990.